Færsluflokkur: Bloggar

Óskabarn þjóðarinnar

Smyrill skrifaði þessa grein, sem birtist í Mbl. skömmu eftir að hluthafar h/f Eimskipafélags Íslands samþykktu á hluthafafundi með afgerandi meirihluta að yfirfæra félagið til Straums-Burðaráss og gera Eimskipafélagið að dótturfyrirtæki þessa fjárfestingarbanka. Ég greiddi, ásamt fáum öðrum hluthöfum, atkvæði gegn tillögunni. Þegar ég skrifaði greinina var ég mjög hikandi  í lofgjörð minni um útrásarvíkingana, en gerði það samt, sennilega til að þóknast meiri hlutanum og til að vera í takt við tíðarandann þá. Ég myndi að gefnu tilefni, nú í nóvember 2008, ekki mæra þessa atburðarrás en það er gott að vera vitur eftir á. Mér virðist óskabarnið nú um stundir eiga í vök að verjast eftir að ráðgast hefur verið með það á ýmsan misvitran hátt, en vafalaust á það eftir að ná vopnum sínum á ný.  Hlutabréf mitt var arfur eftir afa minn, sem gerðist stofnfélagi , ásamt þúsundum Íslendinga hér heima og í Vesturheimi, strax við stofnun félagsins 1914.

 

"Frá og með 19. mars er H.F. Eimskipafélag Íslands orðið dótturfélag Burðaráss, sem áður var fjárfestingar-dótturfélag H.F. Eimskipafélags Íslands. Þessi breyting var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta mættra hluthafa á aðalfundi félagsins þennan dag. Ekki þarf að rekja söguna um stofnun Eimskipafélagsins fyrir 90 árum, sem var merkur áfangi í sjálfstæðisbaráttu okkar. Þjóðin öll, ásamt löndum okkar í Kanada, sameinaðist um stofnun þessa félags og það var fögnuður um allt land, þegar fyrsta skip félagsins, E/S GULLFOSS, kom til heimahafnar, Reykjavíkur, sem þá var höfuðstaður Íslands. Nú virðist mér að meiri hluti Burðaráss gæti tæknilega selt dótturfélag sitt, H.F. Eimskipafélag Íslands, hæstbjóðanda, jafnt erlendum sem innlendum aðilum.    vísu  ber ég traust til núverandi eigenda Burðaráss og veit að þeir eru dugandi menn og framsýnir, sem sjá sér færi á að fara í víking og fjárfesta í góðum fyrirtækjum á erlendum vettvangi, vonandi landi okkar til vegsauka og til hagsbóta fyrir viðskiptamenn félagsins og hluthafa.  En ég ber þá von í brjósti að þeir láti aldrei freistast af erlendum tilboðum hversu mikið gull, sem kynni að vera í boði, og haldi þessu alíslenska 90 ára óskabarni þjóðarinnar,  H/F Eimskipafélagi Íslands,  ávallt í íslenskri eigu.  Einnig vona ég að sá draumur eigi eftir að rætast að íslensk kaupskip sigli á ný undir hinum fagra fána okkar, en vegna samkeppnisaðstöðu virðist það óhentugt nú um stundir;  en  spurningin er,  gætu íslensk  stjórnvöld e.t.v. bætt úr þessu ástandi með laga- eða reglugerðarsetningu, sem gerðu innlendum kaupskipaútgerðum á ný fært að sigla undir íslenska fánanum?  Íslendingar hafa enn ekki glatað stolti sínu."  -  Smyrill.

 

 

 


Ísland fullvalda ríki

Í dag, 1. desember, eru 90 ár liðin síðan land okkar, eftir um 700 ára þrotlausa baráttu forfeðranna, náði þeim merka áfanga og takmarki í sögu okkar, að verða frjálst og fullvalda ríki. Nú reynir á okkur, sem í dag byggjum landið, að standa vörð um þennan helgidóm, sem baráttumenn liðinna kynslóða, með Jón Sigurðsson í fararbroddi meðan hann var uppi, unnu óslitið að og sýndu aldrei uppgjöf. Þótt alþjóða stofnanir og vinveittar þjóðir veiti okkur nú um stundir fjárhagslega aðstoð og góðar ráðleggingar, meðan á viðreisn eftir hrun banka landsins í síðasta mánuði stendur, ætti slík tímabundin aðstoð, jafn mikilvæg og hún er, ekki að hrófla við fullveldi okkar, enda er stjórn landsins, er gætir hagsmuna okkar á öllum sviðum, í traustum og yfirveguðum höndum. Samtímis mætti hefja ítarlegar umræður um aðild að evrópska Efnahagsbandalaginu og upptöku evru og leiða í ljós kosti þess og galla og ganga á lögmætan hátt úr skugga um að slík aðgerð myndi aldrei skerða sjálfstæði okkar og frelsi, þótt einhverjar skerðingar kynnu að fylgja með í farteskinu, án þess þó að skaða okkar helgustu og dýrmætustu vé.

NORÐMENN

Við Íslendingar vitum að bræðraþjóð okkar, Norðmenn, er efnuð þjóð;  þeir eiga velgengni sinni nú um mundir m.a. að þakka vissri auðlynd, olíuvinslunni í lögsögu sinni.  Heyrst hefur orðrómur um að málsmetandi menn í Noregi beri hlýjan hug til þjóðar okkar og að þeir hafa mælt með því að norska þjóðin veiti okkur tímabundna aðstoð, meðan Ísland er að vinna sig út úr yfirstandandi efnahags erfiðleikum.  Við eigum að meta vináttu Norðmanna við okkur og auðsýna þeim þakklæti fyrir hvert það vinarbragð, sem þeir kunna að sýna okkur, enda erum við engir ómagar,  þótt erfiðleika blási nú um stundir,  og munum vafalaust greiða útistandandi skuldir okkar, jafnskótt og um vænkast. Gleymum ekki skyldleika okkar við hina norsku þjóð, þótt samningar okkar á milli hafi stundum verið eilítið stirðir, enda báðar þjóðirnar þekktar fyrir að standa á sínu.  

Viðgerðir

Ástæða er til að þakka tæknimönnum, innlendum sem erlendum, fyrir vandasama, tímafreka en vandaða vinnu við lagfæringar mbl.blog.is. 

Einelti

Einelti er ávallt alvara.    Ég þakka Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, frv. borgarstjóra, fyrir ágæta og tímabæra grein, sem birtist í í 24 stundum 24. júlí. Hún tekur á þessu alvarlega vandamáli af mikilli þekkingu og  skynsemi.  Einelti í skólum og víðar hefur viðgengist um langan aldur en bót á þessu hættulega fyrirbæri verður ekki ráðin fyrr en skólayfirvöld, kennarar og foreldrar taka höndum saman og sameinast um að lágmarka og helst af öllu að stöðva þetta samfélagsmein.       Sama þarf að gera á vinnustöðum þar sem einelti viðgengst.    En hvernig lítur þetta út í stjórnmálaheiminum, meðal ráðandi manna, sem með völdin fara, eða  yfirmanna, sem hafa með höndum embættisveitingar og fara með mannaforráð? Fá þeir nokkurn frið til að vinna að úrlausn vandasamra verkefna?    Ráðamenn í þjóðfélagi okkar og ekki síst þeir sem fara með völdin hverju sinni, verða þráfaldlega fyrir ómaklegum árásum af andstæðingum þeirra í stjórnmálum, stjórnar-andstæðingum sem telja sig hafa  yfir að ráða einu réttu lausnir á vandamálum líðandi stundar, þótt svo sé ekki,  aðeins til þess að reyna að koma höggi á viðkomandi ráðamann eða ráðamenn og helst með það fyrir augum að gera þá að ómerkingum með skömmum sínum og oft á tíðum ábyrgðarlausri gagnrýni. Hér er oft um visst einelti að ræða og oft linnir ekki látum fyrr en búið er að gera út um þann eða þá, sem fyrir þessum ósköpum verða, en tilgangur þessa óábyrgu andstæðinga er auðvitað sá að þeir vilja sjálfir komast að kjötkötlunum og fögnuðurinn nær þá fyrst hámarki,  þegar þeir sjá fórnarlömb sín liggja í valnum. Þessu fylgir sú hætta að bestu og færustu menn þjóðarinnar eða sveitarfélaganna kæri sig ekki um að bjóða sig fram þegar val eða kosningar eru í aðsigi.   Eðlilegt er að menn skiptist á skoðunum, en þeir menn, sem þjóðin eða borgararnir kjósa til þess að fara með æðstu og vandasömustu störfin,  hvort heldur sem er á landvísu eða í sveitastjórnum, eiga að vinna og starfa saman og að lokum sameinast um þær lausnir, sem landinu eða bæjarfélögunum eru fyrir bestu og lýðnum til farsældar.  Öllsundrung, stöðugar þrætur og andstyggilegt einelti er ótilhlýðilegt og til skammar og leiðinda. Fólkið hefur treyst þessum mönnum en þeir verða að sýna fólkinu að þeir séu traustsins verðir. Þótt að vísu sé oft að mörgu að hyggja og hagsmunir landsmanna séu iðulega mismunandi, er í flestum tilfellum aðeins til einn sannleikur og eitt réttlæti. Smyrill       

 


Kor13-3-6

E.T.V. til athugunar fyrir herra Öxssur:

Bæn dagsins

Miskunnsami Guð. Við biðjum fyrir hinum ofsóttu og fyrir þeim sem ofsækja, fyrir hinum píndu og fyrir þeim sem pína, fyrir öllum sem hæðast að, spotta og lastmæla og fyrir þeim sem verða fyrir áreitni þeirra.

Drottinn, miskunna þú oss. Amen


Borgarstjórastaðan

Dagblaðið Vísir fjallar árið 1927 um borgarstjórann í Reykjavík á þennan veg:

Borgarstjórastaðan er vafalaust einhver örðugasta og argasamasta staða hér á landi, og má einatt búast við, að sá sem í henni situr, verði fyrir fjandsamlegum árásum og hörðum dómum. Knud Zimsen hefur og ekki farið varhluta af árásunum. En hann hefur tekið öllu slíku með karlmennsku, gengið glaður og reifur til orustu við andstæðinga sína, en verið sáttfús og glaður sem fyrr að fengnum sigri eða töpuðu máli.- Hann hefur þótt örðugur mótstöðumaður, vel máli farinn, kappsamur við hóf, fundvís á rökvillur andstæðinganna, hverjum manni kunnugri högum bæjarfélagsins og hefur greið svör jafnan á höndum.- Hefur hann á stundum átt allmjög í vök að verjast í bæjarstjórninni, er jafnaðarmönnum hefur þótt hann þungur fyrir og íhaldsamur, en ekki trútt um, að hinum hafi þótt hann sveigjast um of í frjálslynda átt.- Mun og sönnu næst, að hann hafi hin síðari árin viljað standa á milli öfganna og reynt að nýta hið besta úr tillögum beggja flokka.

Knud Zimsen lést í Reykjavík 15. apríl 1953.

PS. Álitið er að greinarhöfundur hafi hitt naglann á höfuðið er hann skrifaði ofangreindan kafla í Vísir 1927.


« Fyrri síða

Um bloggið

Árni Kr Þorsteinsson

Höfundur

Árni Kr Þorsteinsson
Árni Kr Þorsteinsson
Er bara eftirlaunaþegi

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • smyrill 756150

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband